Þess vegna er ég Zontakona

„Góð vinkona og fyrrverandi söngkennari minn hringdi í mig fyrir nokkrum árum og sagði að Zontahreyfingin á Íslandi vildi stofna klúbb í Borgarfirði. Ég hafði aðeins kynnst þessu í gegnum hana og hafði áhuga á að skoða það að vera með ef yrði stofnaður klúbbur hér. Við mættum nokkrar á kynningarfund og strax fann ég að þetta var eitthvað sem átti við mig, að bæta stöðu kvenna í heiminum.

Ég er stofnfélagi í Zontaklúbbi Borgarfjarðar – Uglu og hef mætt á flesta fundi frá upphafi. Mér finnst það sem zontahreyfingin stendur fyrir vera mjög göfugt og er bæði stolt og þakklát fyrir að fá að eiga þátt í því að styðja konur í heiminum og bæta líf þeirra. Eftir því sem ég sæki fleiri fundi og viðburði tengda Zonta kynnist ég starfinu betur og verð glaðari yfir því að eiga þátt í þessu verkefni. Ég óska þess að staða kvenna muni bara bætast í framtíðinni og legg mitt að mörkum með ánægju.“

Theodóra Þorsteinsdóttir, formaður 2016-2018

____________________________________________________________________________________________________

„Þess vegna er ég Zontakona.
Vinkona hafði samband við mig og hvatti mig til að taka þátt í stofnun Zontaklúbbs Borgarfjarðar. Á þeim tíma þekkti ég ekki störf Zonta en fann að það gæti verið áhugavert að efla stöðu kvenna í heiminum. Í bréfpósti frá Zonta International með félagaskírteini var póstkort með mynd af stofnendum Zonta hreyfingarinnar 1918. Þær minntu mig á ömmu mína, sem barðist fyrir kvennréttindum. Amma var einstæð móðir fjögurra stráka og rak fyrirtæki. Hún stóð upp gegn karlaveldinu sem þá ríkti. Það efldi áhuga minn að tengja starfið minningum um ömmu.

Ég á þrjár dætur og óska þess að þær fái að njóta sín í leik og starfi óháð kyni. Eftir fimm ár í Zontaklúbbi Borgarfjarðar, Uglu, hef ég kynnst Zontastarfinu á Íslandi og í heiminum og geri mér grein fyrir því að víða er enn langt í land þar til að konur njóti jafnréttis til jafns við karla og að við í Zontahreyfingunni skiptum máli í þeirri baráttu.“

Ulla Pedersen, formaður 2014 – 2016

Theodóra Þorsteinsdóttir
ulla
Ulla Pedersen